/customers/hervar.com/hervar.com/httpd.www/wp-content/plugins/wp-cache/wp-cache-phase1.php Blær fallinn | Sauðárkróks-Hestar

Blær fallinn

25th janúar, 2011 - Sauðárkróks-Hestar

Við tókum þá ákvörðun fyrir nokkru að fella Blæ. Hann var 33 vetra og hafði látið á sjá síðasta árið. Þessi höfðingi á það skilið að um hann sé fjallað í nokkrum línum.

Hann var fæddur 1977 undan Hrafnhettu og Gusti 923. Hann var stórglæsilegur sem folald og minnti mjög á föður sinn í öllu fasi og myndarskap. Hélt hann stolti sínu til hinsta dags, styggur og gerði sér mannamun.

Veturgamall fór hann að Stóra – Hofi til Sigurbjörns Eiríkssonar sem ætlaði að sjá um uppeldi og tamningu. Aðeins var hann notaður og undan honum kom meðal annars gæðingurinn og glæsihryssan Blökk frá Efri – Brú. Einnig er gaman að geta þess að hinn frábæri gæðingur Tenór frá Túnsbergi er dóttur dóttur sonur Blæs.

En það átti ekki fyrir Blæ að liggja að verða stóðhestur. Á fjórða vetur er hann í tamningu hjá þeim Alberti Jónssyni og Freyju Hilmarsdóttur. Þorkell Bjarnason er beðinn að líta á hestinn og hann telur sig ekki geta mælt með honum sem stóðhesti þrátt fyrir augljósa reiðhestkosti. Fótagerðin sé ekki traustvekjandi. Það var ákveðið að gelda Blæ. Árið eftir 1982 fer Blær í kynbótadóm sem afkvæmi móður sinnar sem stefnt er með á Landsmót. Blær hlýtur góðan dóm, 7.94 fyrir sköpulag 8,42 fyrir kosti og 8,18 út. Þessi dómur hefði nægt Blæ til að vinna 5v. flokk stóðhesta á mótinu.

Áhyggjur ráðunautsins um slaka fótagerð reyndust óþarfar. Blær var í brúkunn til þrítugs, og fæturnir dugðu vel og voru óbilaðir til hinsta dags.

Ekki var þó þessi mikli gæðingur sparaður um daganna, keppnishestur framan af en síðar notaður til útreiða, ferðalaga sem gangnahestur og hvergi dregið af.

Blær var stórbrotinn gæðingur, miklum kostum búinn, með ódrepandi vilja. Á 14. degi á ferðalagi var hann bestur. Hann var skapmikill og stoltur en bar virðingu fyrir húsbónda sínum og þjálfara en engum öðrum var hleypt of nærri.

Minning um stórbrotinn hest lifir.